Tidsskriftet
Tekið verður við handritum greina á útgáfuvef þegar vefurinn er kominn í fulla notkun.
Athugið að eftirfarandi leiðbeiningar munu taka breytingum bráðlega með hliðsjón af verklagi á útgáfuvef sem þessum.
Ef tveir eða fleiri eru höfundar þarf að koma fram hver þeirra verði í forsvari fyrir greinina ásamt yfirlýsingu um að handritið sé sent með samþykki allra höfunda og þeir séu samþykkir röð höfunda eins og hún birtist í handritinu.
Að öllu jöfnu skulu greinar vera á íslensku og áhersla er lögð á að notuð séu íslensk fræðiheiti, sé þess kostur. Í undantekningartilvikum er tekið við greinum á ensku. Þetta á við um erlenda fræðimenn sem stunda rannsóknir hérlendis og óska eftir að kynna íslenskum lesendum rannsóknir sínar.
Meginreglan er sú að innsendar greinar hafi ekki birst annars staðar á prenti. Undantekning er gerð frá þessari reglu ef ritnefnd telur greinar sem birst hafa í erlendum fagtímaritum eftirsóknarverðar til birtingar á íslensku. Hins vegar er þá gerð sú krafa að greinin sé ekki bein þýðing á þeirri fyrri og að handritinu fylgi eintak af fyrri greininni til samanburðar. Sálfræðiritið birtir efni sem áður hefur verið kynnt á vísindaþingum og birt hefur verið sem ágrip í tengslum við þingin. Fyrri birtinga greina sem birtast í Sálfræðiritinu skal ætíð geta neðanmáls á titilsíðu handrits.
Sálfræðiritið byggir ætíð á nýjustu reglum Bandaríska sálfræðingafélagsins (APA reglur) um frágang og uppbyggingu greina (sjá t.d. hér ). Sé frágangi handrits ábótavant og ekki í samræmi við APA reglur og viðmið ritsins (sjá gátlista hér) verður handritið endursent með ábendingum um lagfæringar. Gerð er sú krafa að formlegum viðmiðum ritnefndar um uppsetningu sé fullnægt áður en handritið er sent til sérfræðinga til umsagnar. Hlutverk þeirra er að annast faglega umsögn og fullbúin og vönduð handrit greiða fyrir vinnu þeirra. Áður en handrit er sent í ritrýningu eru nöfn höfunda fjarlægð.
Ritstjórn getur hafnað handriti strax en í flestum tilvikum eru handrit send til ritrýningar. Innsent efni sem tekið er til ritrýningar fær umsögn þriggja aðila. Í öllum tilvikum er reynt eftir fremsta megni að hafa alla ritrýnendur utan ritnefndar. Reynist það ekki unnt skal aldrei vera fleiri en einn ritrýnandi úr ritnefnd. Þegar fulltrúi í ritnefnd, nemendur hans eða samverkamenn eru höfundar skulu allir ritrýnendur skilyrðislaust vera utan ritnefndar. Þeir höfundar sem eiga handrit í skoðun hjá ritinu skulu ekki ritrýna annað handrit sem sent er í sama árgang ritsins. Ritrýnar skulu teljast sérfróðir um það efni sem viðkomandi grein fjallar um. Leitað er til ritrýna bæði hérlendis og erlendis og reynt að leita til breiðs hóps svo það séu ekki alltaf þeir sömu sem fjalli um greinar. Umsögn fylgir jafnframt tillaga um birtingu eða synjun. Einnig getur grein verið samþykkt með fyrirvara um að brugðist sé við ábendingum. Umsagnir yfirlesara eru teknar saman af ritstjórn og sendar höfundum með athugasemdum frá ritstjórn séu þær fyrir hendi. Höfundar fá ekki uppgefin nöfn ritrýna. Eftir að greinarhöfundur hefur brugðist við athugasemdum er endurskoðað handrit lesið yfir af ritstjórn og svör hans við ábendingum ritrýna metnar og honum sendar nýjar ábendingar, fyrri ábendingar ítrekaðar eða hann látinn vita að grein hans sé endanlega samþykkt með áorðnum breytingum. Ritstjórn úrskurðar endanlega um birtingarhæfi greinar. Hafi höfundar ekki brugðist við gagnrýni innan þriggja mánaða er litið svo á að þeir hafi hætt við birtingu.
Prófarkalestur greina
Greinarhöfundar fá senda til leiðréttingar próförk af samþykktum greinum, frágengnum til birtingar. Höfundar skulu samlesa vandlega handrit og próförk og leiðrétta sé þess þörf og fullvissa sig um að ekki hafi læðst inn villur í umbroti. Hér bera höfundar mikla ábyrgð. Lesa verður vel allan texta og einnig ber að huga vel að samræmingu heimildatilvísana í texta og heimildalista svo og fara vel yfir töflur og myndefni. Á þessu stigi eru efnislegar breytingar ekki leyfðar. Ritnefnd áskilur sér rétt til að breyta orðalagi eða stafsetningu ef nauðsyn krefur við lokafrágang ritsins.